Samskiptamál, einelti og áreitni

Á undanförnum 20 árum hefur Líf og sál öðlast mikla þekkingu og reynslu af úttektum, úrvinnslu og forvörnum vegna samskiptaerfiðleika, eineltis og áreitni á vinnustöðum. Góð samskipti á vinnustað eru algjör lykilþáttur er varðar líðan starfsfólks, samvinnu og samstöðu. Eðlilegt er að stöku ágreiningur komi upp í samskiptum á vinnustað en mikilvægt er að séð sé til þess að samskiptaerfiðleikar fái ekki að þrífast á vinnustaðnum. Stjórnendur bera ábyrgð á forvörnum sem geta m.a. falið í sér fræðslu um samskipti og kynningu á þeim leiðum sem starfsfólki stendur til boða ef upp koma erfiðleikar í samskiptum.

 

Einelti, áreitni og ofbeldi.

Einelti, kynferðisleg áreitni, kynbundin áreitni og ofbeldi eru dæmi um framkomu sem aldrei á að líða á vinnustað. Samkvæmt reglugerð nr.1009/2015 er stjórnendum skylt að bregðast við ef grunur leikur á að starfsmaður hafi orðið fyrir slíkri framkomu. Einnig ber stjórnendum að gera hvað þeir geta til að sporna við framkomu af þessu tagi, m.a. með fræðslu um samskipti, einelti og áreitni. Þá er stjórnendum einnig skylt að hafa viðbragðsáætlun sem er aðgengileg öllum starfsmönnum. Sú áætlun felur í sér lýsingu á því til hvaða aðgerða atvinnurekandi mun grípa í því skyni að koma í veg fyrir einelti, áreitni og ofbeldi á vinnustaðnum og hvernig brugðist verði við kvörtunum um slíkt.

 

Stefna og viðbragðsáætlun

Vinnustaðir sem marka sér skýra stefnu varðandi einelti og og kynferðislega áreitni og kynna hana vel fyrir starfsfólki sínu, vinna a.m.k. þrennt: Í fyrsta lagi hefur slík stefna forvarnaráhrif, þar sem starfsmenn eru sér meðvitaðir um viðhorf vinnustaðarins og ekki síður eru þeir sér meðvitaðir um hvaða framkoma getur flokkast sem einelti og kynferðisleg áreitni. – Í öðru lagi eykur slík stefna líkurnar á að þolendur leiti sér hjálpar. – Og í þriðja lagi er vinnustaðurinn betur í stakk búinn að bregðast við og því meiri líkur á að viðbrögðin verði fagleg og vinnustaðnum til sóma.

 

Velferðar- og eineltisteymi

Við aðstoðum fyrirtæki og stofnanir við að koma á fót velferðarteymum og veitum jafnframt ráðgjöf, stuðning og handleiðslu til slíkra teyma.

 

Athuganir á kvörtunum um einelti, áreitni eða ofbeldi

Við höfum langa reynslu af úttektum á kvörtunum vegna eineltis, áreitni eða ofbeldis á vinnustað. Við höfum komið okkur upp vönduðu verklagi þar sem hugað er vel að því að bæði sá sem kvartar og sá sem kvartað er undan, fái tækifæri til að koma sínum sjónarmiðum á framfæri og út frá þeim upplýsingum er fengin niðurstaða og lagðar fram tillögur að næstu skrefum.

 

Fræðsla fyrir stjórnendur og starfsfólk

Við bjóðum upp á fræðslu fyrir annars vegar stjórnendur og aðra þá sem gegna lykilhlutverki í að bregðast við einelti og kynferðislegri áreitni á viðkomandi vinnustað; og hins vegar fræðslu fyrir starfsfólkið almennt. Lengd námskeiðanna fer eftir óskum viðkomandi vinnustaðar. Á námskeiðunum skiptast á fyrirlestrar, almennar umræður og verkefni.

 

Aðstoð Lífs og sálar við meðferð einstakra mála getur verið með þrennum hætti:

Í fyrsta lagi ráðgjöf við stjórnendur varðandi einstök mál, án beinnar þátttöku í vinnslu málsins.
Í öðru lagi bein þátttaka í vinnslu málsins; þ.e. við tökum að okkur að hitta málsaðila meta aðstæður og koma með tillögur til úrbóta. Einnig bjóðum við uppá eftirfylgd – ráðgjöf og stuðning, í kjölfar slíkrar úttektar.
Í þriðja lagi stuðningsviðtöl við þolendur og/eða meðferðarviðtöl við þá sem hafa orðið uppvísir að því að leggja í einelti.