Fræðsla og námskeið

Við leggjum áherslu á að bjóða á hverjum tíma upp á fjölbreytt úrval fyrirlestra og námskeiða. Leiðarljós okkar er að fræðslan sé hagnýt og lífleg og löguð að þörfum þeirra hópa sem við hittum hverju sinni. Við bjóðum upp á fjölbreytta fræðslu og námskeið þar sem bæði er fjallað um tiltekin vandamál sem upp geta komið á vinnustað og um leiðir til að auka vellíðan og jákvæð samskipti á vinnustaðnum.

Við sníðum fyrirlestra, vinnustofur og námskeið að þörfum hvers vinnustaðar fyrir sig. Hér að neðan má sjá dæmi um algeng efnistök og stundum eru erindi samsett úr tveimur eða fleiri efnisatriðum. Listinn hér að neðan er ekki tæmandi.

 

Dæmi um fræðslu og námskeið á vegum Líf og sálar:

Samskipti og líðan á vinnustað

Fjallað er um hvaða einkennir góð og slæm samskipti á vinnustað og áhrif þeirra. Fjallað um starfshlutverk, fagmennsku, starfsanda, samskiptaaðferðir, að setja mörk og gagnrýni. Farið er yfir birtingarmyndir eineltis og áreitni og hvernig hægt er að fyrirbyggja að neikvæðir samskiptahættir nái að þrífast á vinnustaðnum.

Samskipti við krefjandi viðskiptavini

Fjallað er um samskipti við viðskiptavini sem eru krefjandi í samskiptaháttum sínum, sem jafnvel eru í ójafnvægi vegna erfiðleika eða áfalla. Farið er yfir hvernig er best að bregðast við, hvernig hægt er að halda jafnaðargeði og brynja sig fyrir neikvæðum áhrifum þess að vera í slíkum samskiptum.

Stjórnað með samkennd

Á þessu námskeiði er lögð áhersla á að skilja samkennd og hvernig samkennd getur hjálpað stjórnanda að hvetja, leiða og styðja teymi sitt í sálfélagslegu öruggu vinnuumhverfi.

Grunnur að því að stjórna út frá samkennd er að skilja betur hvernig heili og taugakerfi mannsins sem og saga hvers og eins hefur áhrif á hvatir, tilfinningar, vitsmuni, hæfni, viðbrögð og hegðun.

Á námskeiðinu öðlast þátttakendur innsýn í margþættar hliðar samkenndar og hvernig sú þekking getur aukið visku, hugrekki og ásetning í að leiða teymi sitt með samkennd og skapa sálfélagslega öruggt vinnuumhverfi þar sem allir starfsmenn geta fundið farsælan farveg. Öruggt vinnuumhverfi er grundvöllur þess að starfsmenn dafni, líði vel og leggi sig fram.

Kvennavinnustaður - karlavinnustaður - blandaður vinnustaður

Það er viðtekin skoðun að andrúmsloftið og samskiptin séu með ólíkum hætti á kvenna- og karlavinnustöðum. Á sama hátt er talið að vandamálin sem upp kunna að koma í samskiptum á vinnustöðum birtist öðru vísi hjá körlum en konum. Fjallað er um konur á vinnustað, karla á vinnustað og menningu vinnustaðarins, starfshlutverkið og hvað felst í fagmennsku.

Að þrífast í krefjandi starfi

Alkunna er að hæfileg streita er af hinu góða og að það er mikilvægt að hafa stjórn á álaginu sem mætir okkur í vinnunni. Það er því lykill að vellíðan starfsfólks að það temji sér hagnýtar aðferðir við að takast á við álagsþættina sem fylgja velflestum störfum.

Að takast á við áföll og óvissu

Áföll kippa undan okkur fótunum og óvissan nagar. Þá virðist gjarnan um fátt annað að velja en óttann og reiðina. Fjallað er um viðbrögð við áföllum og bent á hagnýtar leiðir til að bæta líðan sína á erfiðum tímum.

Að fara í gegnum breytingar

Fjallað er um breytingarferli og hvernig breytingarferli geta haft mismunandi áhrif á fólk. Sumir sjá tækifæri í ferlinu en aðrir upplifa ógn af því. Farið er yfir hvað fólk getur gert til að takast á við krefjandi breytingar á vinnustað.

Hugrænn undirbúningur í íþróttum

Farið er yfir helstu þætti sem ógna frammistöðu íþróttamanna. Fjallað er um aðferðir til að bæta hugræna færni svo íþróttamenn geti betur tekist á við mótlæti og aukið árangur.

Góð liðsheild

Fjallað er um ávinning góðrar liðsheildar, hvernig hún er byggð upp og hvaða ógnar liðsheildinni.