„Að þrífast í krefjandi starfi“ var yfirskrift vinnustofu sem höfundur greinar hélt fyrir Félag talmeinafræðinga í maí 2024. Var þar fjallað um helstu þætti sem mikilvægir eru varðandi vellíðan í krefjandi starfi. Það er fjölmargt sem getur haft áhrif á upplifun starfsfólks á vinnunni og margir streituvaldar geta verið í starfsumhverfinu. Stundum er um að ræða verkefnatengda streituvalda, svo sem fjölda verkefna, eða kröfur um hraða. En einnig geta samskipti, bæði innan og utan vinnustaðar, valdið streitu og álagi ef þau eru neikvæð eða erfið. Sé hins vegar vel og faglega staðið að samskiptum á vinnustað ýtir það undir að starfsmaður nái að dafna og líði vel. Ef samskiptin eru ekki góð getur það orðið til þess að starfsmaður upplifi að sálrænu öryggi hans sé ógnað. Með sálrænu öryggi er verið að vísa til þeirrar grunnþarfar fólks að fá að tilheyra hópi þar sem allir eru samþykktir og virðing er viðhöfð í samskiptum. Þar eru faglegar leiðir nýttar til lausnar á þeim ágreiningi sem upp kann að koma. Ef starfsmaður upplifir að sálrænu öryggi hans sé ógnað, getur það haft alvarlegar afleiðingar varðandi almennt heilsufar og líðan viðkomandi. Störf talmeinafræðinga fela í sér mikil og oft náin samskipti við ýmsa aðila, svo sem skjólstæðinga, aðstandendur, aðrar fagstéttir eða starfssemi. Það getur því reynt töluvert á í samskiptum og var því áhersla vinnustofunnar á samskipti almennt, jafnt jákvæð sem neikvæð eða erfið og krefjandi samskipti. Hér á eftir verða rifjaðir upp þeir helstu punktar sem fram komu er varða mikilvæga þætti í samskiptum.
Jákvæð og uppbyggileg samskipti
Jákvæð og uppbyggileg samskipti geta falið í sér ýmsa þætti en þó má segja að ákveðin grundvallaratriði séu nauðsynleg. Eitt af þeim er að sýna gagnkvæma virðingu í garð viðmælanda með því t.d. að leggja sig fram við að vera sveigjanlegur og sýna viðmælanda skilning. Jafnframt er mikilvægt að leitað sé lausna á því sem rætt er um. Þar þarf að viðhafa virka hlustun, það er að það sé greinilegt að við séum með athyglina við það sem viðkomandi er að ræða um. Einnig getur verið gagnlegt að draga saman það sem sagt var, nota hrósið og huga að óyrtum þáttum í eigin fari eins og líkamsstöðu okkar eða augnaráði. Við þurfum að veita viðbrögðum viðmælenda athygli, bregðast við og taka ábyrgð ef við teljum okkur sjá í viðmóti hans að við höfum farið yfir mörk. Við getum þannig rökrætt á málefnalegan hátt og jafnvel verið ósammála, en virðing og yfirvegun er viðhöfð. Hver og einn þarf að taka ábyrgð á sjálfum sér og leggja sig fram við að eiga í jákvæðum samskiptum við aðra.
Erfið samtöl
Þrátt fyrir að við leggjum okkur flest fram við að eiga í jákvæðum samskiptum getum við lent í erfiðum samtölum þar sem viðmælandi bregst illa við eða samskiptin verða mjög krefjandi. Yfirleitt gerist slíkt vegna hugsunarleysis, misskilnings eða jafnvel vegna streitu og álags. Þá er mikilvægt að halda ró og reyna að milda samræðurnar með því að halda sér innan ramma jákvæðra samskipta. Nýta þarf þá virka hlustun og reyna að greina af hverju viðmælandi er reiður eða sár og sýna skilning. Mikilvægt er að leita lausna og setja málið í farveg. Ef metið er svo að samtalið sé komið í strand getur verið gagnlegast að enda það en þá með þeim hætti að halda eigi því áfram síðar. Mikilvægt er að sýna virðingu en jafnframt ákveðni.
Ef við teljum að fram undan sé erfitt samtal, er gott að undirbúa sig vel. Mikilvægt er að búa til ramma, þ.e. hvernig best er að byrja og enda samtalið og hvaða atriði það eru sem er mikilvægt að komist til skila. Einnig þarf að huga að aðstæðum, þ.e. hvar er best að samtalið fari fram, hvenær, hversu lengi það á að standa og hvað er hægt að gera til að koma í veg fyrir truflun. Einnig er mikilvægt að huga að eigin líðan og hegðun í samtalinu og hvernig við ætlum að takast á við hugsanleg neikvæð viðbrögð þeirra sem við ræðum við. Mikilvægt er að fara ekki í vörn ef við fáum neikvæð viðbrögð, því vörnin eykur einungis stigmögnun í samskiptum og leysir engan vanda. Innri stjórn er mikilvæg þar sem við höldum okkur í faglega hlutverkinu og við efnið. Varast ber að tala í kringum efnið, fara í vörn eða í þras eða þrætur.
Störf talmeinafræðinga fela í sér að þurfa stundum að vera boðberi slæmra frétta eða niðurstaðna og er þá hjálplegt að hafa ofangreint í huga. Þá er jafnframt mikilvægt að vera skýr í framsetningu og tala á „mannamáli“. Gagnlegt getur verið að spyrja viðkomandi hvort hann hafi skilið og meðtekið upplýsingar sem lagðar voru fram. Mikilvægt er að fylgja samtali eftir fljótlega. Oft er verið að fjalla um viðkvæm og flókin mál og viðmælendur geta upplifað streitu og vanlíðan í samtalinu og því ekki meðtekið allt sem fram fer. Því er oft gagnlegt að eiga símtal næstu daga við viðkomandi til að fylgja málum eftir og gefa rými fyrir spurningar sem kunna að hafa vaknað. Þannig er hægt að tryggja að upplýsingar hafi skilað sér á réttan hátt og að sátt ríki.
En hvernig jöfnum við okkur eftir slík samtöl?
En hvað svo? Erfið samtöl reyna gjarnan á fagfólk og því þarf að huga vel að því að hlúa að sér eftir erfið samtöl. En hvernig jöfnum við okkur eftir slík samtöl? Eitt af því sem er mikilvægt að muna er að við berum ekki ábyrgð á tilfinningum eða framkomu viðmælenda. Við berum eingöngu ábyrgð á okkar eigin viðbrögðum. Ef við höfum átt í erfiðum samskiptum getur verið gott að ræða við einhvern sem við treystum um reynslu okkar og skoða eigin hugsanir. Þar er mikilvægt að skoða hvort upp hafi komið neikvæðar hugsanir í kjölfar samtalsins og hvort hægt sé að setja í staðinn rökréttar hugsanir. Í því ljósi getur verið mjög gagnlegt að sækja sér handleiðslu hjá fagaðila, svo sem hjá reyndari talmeinafræðingum eða hjá sálfræðingum, til að spegla sína upplifun og fá stuðning til að takast á við krefjandi hliðar starfsins. Ávinningur af handleiðslu er yfirleitt bætt líðan fagaðilans og betri upplifun hans í starfi og í persónulega lífinu.
Það er mikilvægt að hlúa að sér sem fagaðila en einnig í persónulega lífinu til að standa traustari fótum. Þá mætum við nýjum aðstæðum með forvitni, leyfum okkur að gera mistök, kunnum að setja mörk og búum yfir þrautseigju og þolinmæði. Ef við hins vegar stöndum veikum fótum þá förum við gjarnan í vörn, hræðumst mistök og dæmum aðra og eigum erfiðara með að sjá okkar þátt í samskiptum. Við getum unnið markvisst að því að standa traustum fótum með því að nýta gagnlegar leiðir í samskiptum og hlúa að okkur sem fagfólki og sem einstaklingum.