Líf og sál í Mannauðsblaðinu

Starfsfólk Lífs og sálar skellti sér á Mannauðsdaginn síðastliðin föstudag. Það var mjög skemmtilegur dagur og alltaf gaman að hitta annað fólk sem deilir áhugasviði okkar. Í tilefni af Mannauðsdeginum birtist grein um Líf og sál í Mannauðsblaðinu. Hér í framhaldinu má lesa það sem fram kom.

Þórkatla Aðalsteinsdóttir, Katrín Kristjánsdóttir, Auður Erla Gunnarsdóttir og Vigdís Ásgeirsdóttir eru allar reyndir sálfræðingar og eigendur sálfræði- og ráðgjafarstofunnar Lífs og sálar. Í viðtalinu fjalla þær um helstu viðfangsefni sín á stofunni og spennandi vinnustofu sem Ståle Einarssen, prófessor í vinnu- og skipulagssálfræði við Háskólann í Bergen, mun halda á þeirra vegum.

Líf og sál sálfræði- og ráðgjafarstofa hefur unnið með fjölmörgum vinnustöðum síðastliðin 25 ár. Verkefnin hafa verið mismunandi og mörg en lúta öll að sálfélagslegu öryggi starfshópsins með einum eða öðrum hætti.

„Forvarnir svo sem fræðsla og skýr stefna vinnustaða varðandi vinnustaðamenningu eru meðal þeirra verkefna sem við teljum vega þungt svo ekki komi upp alvarlegar og íþyngjandi aðstæður í starfshópnum, s.s. kvartanir um einelti, áreitni eða samstarfserfiðleika,“ segir Þórkatla Aðalsteinsdóttir sálfræðingur.

Fræðsla er að sjálfsögðu mikilvæg til að auka vitund um farsæl og fagleg samskipti, að haldið sé í góðan liðsanda og vitund um mikilvægi sálræns öryggis hvers einasta starfsmanns að hennar sögn.

„Það er svo sem ekkert nýtt undir sólinni hvað varðar samskipti og áhrif þeirra á líðan í starfshópi. En það virðist þó algjörlega nauðsynlegt að skapa reglulega vettvang innan vinnustaðar til að ræða hvað einkennir góð, jákvæð og fagleg samskipti. Við lærum ekki þá kúnst í eitt skipti fyrir öll, við erum að læra og bæta okkur þar alla ævi. Jákvæð, uppbyggileg samskipti eru forsenda fyrir árangursríku starfi, góðri liðsheild og traustum starfsanda. Vitund hvers og eins um hvað skiptir máli þar, hvers konar hegðun slær okkur út af laginu og skapar óöryggi, leiðir til að leysa ágreining jafnóðum og svo kjarkur til að vera heiðarleg og hreinskiptin en jafnframt gleyma ekki að sýna virðingu og samhygð – þetta eru mjög mikilvægir þættir til að viðhalda öryggi og góðri geðheilsu hvers og eins og starfshópsins í heild,“ segir Katrín Kristjánsdóttir sálfræðingur.

Faglegir verkferlar grunnurinn að öryggi

Aðrar forvarnir lúta meðal annars að stjórnendahandleiðslu en einnig aðstoð við að byggja upp skýra og faglega verkferla sem ramma inn og veita öryggi og stuðla að því að minnka núning og togstreitu innan starfshópsins.

„Stjórnandi er oft í þeirri stöðu að sitja einn uppi með flókin og viðkvæm starfsmannamál, sem snúa að samskiptum, líðan einstaklinga, frammistöðuvanda eða öðrum verkefnum sem eru viðkvæm og vandasamt að bregðast við með uppbyggilegum og styðjandi hætti en jafnframt með hagsmuni hópsins og verkefnanna í huga. Því er oft gagnlegt að geta deilt stöðunni með öðrum, fengið tillögur að lausnum og stuðning við að taka flókin og krefjandi samtöl,“ segir Auður Erla Gunnarsdóttir sálfræðingur.

Sálfræðingar Lífs og sálar hafa í gegnum árin byggt upp mikla reynslu á þessu sviði, hafa komið að fjölmörgum viðkvæmum
og vandasömum starfsmannamálum ásamt því að koma að málum þar sem vandinn hefur vaxið því ekki var gætt að því að
bregðast faglega og af nærgætni við í byrjun að sögn Þórkötlu.

„Viðbrögð við og athugun vegna kvartana um einelti og áreitni eða samstarfserfiðleika geta verið vandasöm og ef ekki er
staðið faglega og með öryggi að málum skapar það vantraust og vanlíðan innan hópsins,“ segir Þórkatla.

Að læra af erfiðri reynslu

Líf og sál hefur í aldarfjórðung sinnt úttektum í erfiðum starfsmannamálum og hefur sú reynsla verið mikilvæg í vinnu þeirra við að aðstoða stjórnendur og starfshópa við að sigla á farsælan hátt út úr slíkri kreppu að sögn Þórkötlu.

„Þá er ekki síður mikilvægt að sinna viðgerðum á starfsandanum eftir slíka reynslu, byggja upp traust og góðan liðsanda að nýju og læra af erfiðri reynslu. Vera má að nauðsynlegt sé að gera róttækar breytingar sem geta mælst misvel fyrir og þá skiptir máli að hafa að leiðarljósi góða og faglega upplýsingamiðlun og hafa í huga að skapa á ný sálrænt öryggi og vellíðan á vinnustaðnum,“ segir Vigdís Ásgeirsdóttir sálfræðingur.

Eins og fram hefur komið er ljóst að forvarnir skipta gríðarlegu máli.

„Stjórnendur sem búa yfir þekkingu og styðjast við gagnlegt og traust verklag geta frekar brugðist við af öryggi og færni þegar
upp koma erfið samskiptamál á vinnustaðnum. Þá þarf þekkingu sem byggist á nýjustu rannsóknum og bestu kunnáttu sem völ er á á hverjum tíma,“ segir Katrín.

Vinnustofur fyrir stjórnendur og mannauðsfólk

Ståle Einarssen, prófessor í vinnu- og skipulagssálfræði við Háskólann í Bergen, kemur hingað til lands í lok október í þriðja sinn á vegum Lífs og sálar til að halda vinnustofur fyrir stjórnendur og mannauðsfólk um EKKO-mál.

„Ståle Einarsen er þekktur fræðimaður á sínu sviði og hefur birt fjölda greina um einelti og erfið samskipti á vinnustöðum. Þá hefur hann einnig skrifað nokkrar bækur um sama efni. Í þetta skiptið verða þrjár vinnustofur í boði. Fyrst ber að nefna grunnnámskeið í faglegri úttekt á vinnustöðum. Þar verður kennd aðferðafræði sem við höfum nefnt staðreyndarrannsókn
(á norsku faktaundersökelse). Farið verður nákvæmlega í verklag, hvað ber að varast, unnin verkefni og settar upp aðstæður
til æfinga. Vinnustofan er þriggja daga og haldin á Mariott hóteli í Keflavík. Þetta er í þriðja sinn sem þessi vinnustofa er
haldin á vegum Lífs og sálar og hefur ríkt mikil ánægja með gagnsemi og gildi hennar,“ segir Vigdís.

Fyrir þau sem þegar hafa sótt grunnnámskeið í faglegum úttektum á vinnustöðum verður boðið upp á framhaldsnámskeið
eða masterclass sem miðar að því að dýpka þekkingu þátttakenda í úttektum og faglegri vinnslu EKKO-mála.

„Að endingu verður einnig haldin tveggja daga vinnustofa sem miðar að því að veita verkfæri til stjórnenda og mannauðsfólks í eftirfylgd mála að lokinni úttekt svo koma megi aftur á jafnvægi innan vinnustaðar eftir krefjandi tíma. Við hjá Lífi og sál höfum fengið margar fyrirspurnir um slíka vinnustofu enda getur verið mjög vandasamt að græða sár og byggja upp traust eftir erfiða tíma,“ segja þær og bæta við að fræðsla sem þessi gegni veigamiklu hlutverki í að fleyta okkur áfram í átt að betri vinnustaðamenningu og auknu sálrænu öryggi starfsfólks.

„Það er okkar von að mannauðsfólk nýti tækifærið til að læra af reynsluboltanum og fræðimanninum Ståle Einarsen. Hann
er einn af þeim fræðimönnum sem eiga mjög auðvelt með að nýta niðurstöður rannsókna til hagsbóta fyrir þá sem standa í
ströngu daglega við að skapa betri menningu og líðan á vinnustöðum,“ segir Auður Erla að lokum.

WhatsApp Image 2025-10-03 at 13.46.06
Facebook
X
LinkedIn
Pinterest
Reddit
Email
Print