Sáttamiðlun (Mediation) innan vinnustaða
Sáttamiðlun innan vinnustaða er sérsvið innan sáttamiðlunar. Það er gagnlegt úrræði þegar starfsfólk er tilbúið til að leggja sitt af mörkum við að breyta erfiðum samskiptum með aðstoð utanaðkomandi aðila.
Markmiðið er að aðstoða samstarfsfólk við að finna leiðir til þess að eiga í samskiptum sem ekki valda vanlíðan og auka þar með starfsgleði og afköst í vinnunni.
Skoðanaágreiningur er eðlilegur í samstarfi og fólki gengur misvel að vinna saman. En verði ágreiningur að viðvarandi togstreitu veldur það oft vanlíðan og fólk missir vinnugleði, enda upplifir fólk þá gjarnan að komið sé fram við það af óvirðingu eða ósanngirni. Ytri aðstæður geta einnig haft áhrif á að ágreiningur verður að togstreitu sem veldur vanlíðan. Sáttamiðlun er hjálpleg við að koma í veg fyrir að ágreiningur og uppákomur sem valdið hafa sárindum, verði að langvinnu ósætti og vanlíðan í vinnu og heima. Einnig er sáttamiðlun hjálpleg við að opna á nýjar samskiptaleiðir þegar samskiptin eru komin í þrot.
Ferlið er þannig að þátttakendur koma fyrst í einstaklingsviðtöl og ef aðilarnir eru tilbúnir í sáttaferlið er haldinn sáttafundur. Á sáttafundinum, sem tekur um það bil þrjá tíma, fara þátttakendur í gegnum ákveðið ferli sem stýrt er af sáttamiðlara. Það endar með samkomulagi um hvaða fyrstu skref viðkomandi geta tekið þannig að ástandið breytist til batnaðar. Einnig geta þátttakendur komið með tillögur um hvernig aðrir, t.d. stjórnendur geti aðstoðað við að samkomulagið haldist og hjálpað til við að bæta samskipti á vinnustað.
Eftir sáttafundinn er tekið saman minnisblað sem þátttakendur og sáttamiðlari kynna fyrir verkbeiðenda á skilafundi, eftir að þátttakendur hafa samþykkt texta sáttamiðlara á minnisblaðinu. Lokafundur er haldinn mánuði seinna með það að markmiði að skoða hvernig til hefur tekist.