Einelti og kynferðisleg áreitni á vinnustað 2018-04-10T12:36:08+00:00

fræðsla – forvarnir – íhlutun

Stefna í eineltismálum

Vinnustaðir sem marka sér skýra stefnu varðandi eineltiog kynna hana vel fyrir starfsfólki sínu, vinna a.m.k. þrennt: Í fyrsta lagi hefur slík stefna forvarnaráhrif, þar sem starfsmenn eru sér meðvitaðir um viðhorf vinnustaðarins og ekki síður eru þeir sér meðvitaðir um hvaða framkoma getur flokkast sem einelti. – Í öðru lagi eykur slík stefna líkurnar á að þolendur leiti sér hjálpar. – Og í þriðja lagi er vinnustaðurinn betur í stakk búinn að bregðast við einelti og því meiri líkur á að viðbrögðin verði fagleg og vinnustaðnum til sóma.

Fræðsla fyrir stjórnendur og starfsfólk

Við bjóðum upp á fræðslu fyrir annars vegar stjórnendur og aðra þá sem gegna lykilhlutverki í að bregðast við einelti á viðkomandi vinnustað; og hins vegar fræðslu fyrir starfsfólkið almennt. Lengd námskeiðanna fer eftir óskum viðkomandi vinnustaðar. Á námskeiðunum skiptast á fyrirlestrar, almennar umræður og verkefni.

Efnistök á námskeiðum Lífs og sálar um einelti á vinnustað:

  • Fjallað er um starfshópinn, vandamál á vinnustað, algengustu orsakir þeirra og viðbrögð við þeim.
  • Farið er yfir skilgreiningar á hugtakinu einelti, fjallað er um birtingarmyndir þess og nefnd dæmi um hvernig einelti getur þróast í starfshópi.
  • Fjallað er um afleiðingar eineltis fyrir vinnustaðinn og þolandann og bent á leiðir til að koma í veg fyrir og mæta einelti á vinnustað.

Aðstoð við meðferð einstakra mála

Aðstoð Lífs og sálar við meðferð einstakra mála getur verið með þrennum hætti:

  • Í fyrsta lagi ráðgjöf við stjórnendur varðandi einstök mál, án beinnar þátttöku í vinnslu málsins.
  • Í öðru lagi bein þátttaka í vinnslu málsins; þ.e. við tökum að okkur að hitta málsaðila meta aðstæður og koma með tillögur til úrbóta.
  • Í þriðja lagi stuðningsviðtöl við þolendur og/eða meðferðarviðtöl við þá sem leggja í einelti.