Fræðsla2019-05-17T01:04:29+00:00

Hjá Lífi og sál leggjum við áherslu á að bjóða á hverjum tíma upp á fjölbreytt úrval fyrirlestra og námskeiða. Leiðarljós okkar er að fræðslan sé hagnýt og lífleg og löguð að þörfum þeirra hópa sem við hittum hverju sinni. Fræðsluna bjóðum við ýmist sem hluta af víðtækari þjónustu (t.d. í kjölfar vinnustaðagreiningar, eða sem lið í aðstoð við mótun eineltisstefnu) eða sem afmarkað innlegg í almennt fræðslustarf á vinnustöðum eða hjá félagasamtökum.

Dæmi um fyrirlestra og námskeið á vegum Lífs og sálar:

Samskipti og líðan á vinnustað
Fjallað um starfshlutverk, fagmennsku, starfsanda, samskiptaaðferðir, að setja mörk og gagnrýni.

Einelti, kynferðisleg áreitni og kynbundin áreitni á vinnustað
Fjallað um einelti, kynferðislega áreitni og/eða kynbundna áreitni, helstu birtingarmyndir, forvarnir og viðbrögð. Ráðgjöf við mótun stefnu í þessum málum, fyrirlestrar, námskeið og önnur aðstoð eru sérsniðin að þörfum hvers vinnustaðar.

Að takast á við áföll og óvissu
Áföll kippa undan okkur fótunum og óvissan nagar. Þá virðist gjarnan um fátt annað að velja en óttann og reiðina. Fjallað er um viðbrögð við áföllum og bent á hagnýtar leiðir til að bæta líðan sína á erfiðum tímum.

Vellíðan í starfi / streitustjórnun
Alkunna er að hæfileg streita er af hinu góða og að það er mikilvægt að hafa stjórn á álaginu sem mætir okkur í vinnunni. Það er því lykill að vellíðan starfsfólks að það temji sér hagnýtar aðferðir við að takast á við álagsþættina sem fylgja velflestum störfum.

Kvennavinnustaður – karlavinnustaður – blandaður vinnustaður
Það er viðtekin skoðun að andrúmsloftið og samskiptin séu með ólíkum hætti á kvenna- og karlavinnustöðum. Á sama hátt er talið að vandamálin sem upp kunna að koma í samskiptum á vinnustöðum birtist öðru vísi hjá körlum en konum. Fjallað er um konur á vinnustað, karla á vinnustað og menningu vinnustaðarins, starfshlutverkið og hvað felst í fagmennsku.

Liðsheild
Góð liðsheild verður ekki til af sjálfu sér. Fjallað er um aðferðir til að skapa góða liðsheild og liðsanda, unnið með starfshópum og stjórnendum við að uppræta lélegan starfsanda og skapa nýjar reglur á vinnustaðnum.

Starfsmannasamtöl
Starfsmannasamtöl eru mikilvægur vettvangur fyrir starfsmanninn og stjórnandann. Starfsmenn Lífs og sálar aðstoða við að koma slíkum samtölum á og sjá um fræðslu á vinnustaðnum um tilgang og nýtingu slíkra samtala.

Erfið samtöl
Fjallað er um samskipti við viðskiptavini eða samstarfsmenn, sem eru í ójafnvægi vegna erfiðleika eða áfalla, hvernig er best að bregðast við, og hvernig við förum að því að halda okkar jafnaðargeði.

Að fara í gegnum breytingar
Það er alltaf krefjandi að takast á við breytingar sem koma “utan frá” eða “ofan frá”. Þegar heilu starfshóparnir ganga í gegnum breytingaferli er mikilvægt að vanda vel hvernig að breytingunum er staðið og gefa svigrúm til að vinna með viðhorfin og andrúmsloftið í starfshópnum. Fjallað er um breytingaferli, dæmigerð viðbrögð við breytingum og tækifærin sem felast í þeirri gerjun sem breytingar eru.

Hugrænn undirbúningur í íþróttum
Farið er yfir helstu þætti sem ógna frammistöðu íþróttamanna. Fjallað er um aðferðir til að bæta hugræna færni svo íþróttamenn geti betur tekist á við mótlæti og aukið árangur.